Fréttir

Hljóðbókasafn Íslands fær hvatningarverðlaun ADHD

Hljóðbókasafn Íslands hlaut hvatningarverðlaun ADHD samtakanna í ár fyrir „ómetanlega þjónustu til handa börnum og fullorðnum með ADHD sem erfitt eiga með að nýta sér prentað mál“. Verðlaunin voru afhent á málþinginu Konur - vitund og valdefling sem haldið var í Garðabæ. Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna eru viðurkenning sem stjórn ADHD samtakanna úthlutar einu sinni á ári, fyrst árið 2021. Verðlaunin má veita hverjum þeim sem með mikilsverðum hætti hefur lagt sitt af mörkum til bæta lífsgæði fólks með ADHD á Íslandi. Einstaklingar, félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki eða hverskyns lögaðilar geta fengið Hvatningarverðlaun ADHD samtakanna...  Meira

Hlaupastyrkur í Reykjavíkurmaraþoni

Í ár verður í fyrsta skipti hægt að heita á Hljóðbókasafn Íslands í Reykjavíkurmaraþoninu. Valdimar Sverrisson, ljósmyndari og uppistandari, á veg og vanda af skráningu Hljóðbókasafnsins. Hann mun hlaupa 10 kílómetra. „Þetta er táknrænt þakklæti af minni hálfu en ég hef notað safnið mikið síðan ég missti sjónina fyrir níu árum,“ segir Valdimar. Hægt er að heita á hann og fleiri hlaupara safninu til styrktar. Þeim fjármunum sem safnast verður varið til eflingar á bókakosti safnsins. Við erum hlaupurunum þakklát fyrir að vekja athygli á starfsemi Hljóðbókasafns.   Meira

Ályktun Aðalfundar Blindrafélagsins 2024

Aðalfundur Blindrafélagsins 2024 hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að þörfum blindra og sjónskertra einstaklinga í allri stefnumótun og allri þróun á nýjum lausnum innan upplýsingatækni og innleiðingu stafrænnar þjónustu. Aðalfundur ítrekar einnig mikilvægi þess að viðhalda því aðgengi sem þó hefur áunnist og krefur stjórnvöld um að standa vörð um sjálfstæði og starfsemi Hljóðbókasafns Íslands, en safnið er gott dæmi um það hvernig hægt er að veita aðgengi að efni sem annars væri okkur lokuð bók.   Meira

Lesarar fagna vori

Fyrir skemmstu héldum við örlitla vorgleði fyrir lesarahópinn okkar. Án lesara væri starfsemi safnsins ansi daufleg. Í hópnum má finna hæfileikafólk af öllu tagi og þetta var okkar leið til að láta það finna að starf þess er mikils metið. Innlestur hljóðbóka er einmanalegt starf og því tilvalið að stefna öllum saman í einu og gera sér glaðan dag.  Meira

Aukin þjónusta við notendur vefvarps

Hljóðbókasafn Íslands hefur ákveðið að opna fyrir notkun á safninu í tveimur vefvarpstækjum. Breytingin er gerð í samráði við Blindrafélagið enda eru nú nokkrir lánþegar með tvö tæki sér til hagræðingar.  Meira

Bók lesin af nýjum talgervli

Fyrsta bókin sem gerð er aðgengileg í talgervils-tilraunaverkefni á Hljóðbókasafni Íslands í samvinnu við máltæknifyrirtækið Grammatek leit dagsins ljós á dögunum. Verkefnið miðar að þróun íslenskra talgervilslausna fyrir hljóðbækur og er markmiðið með því að auka framboð aðgengilegra bóka. Talgervillinn Gunnar sér um upplesturinn á bókinni „Depurð : afhverju líður okkur svona illa þegar við höfum það svona gott?“ Bókin er hljóðbók með texta og full virkni bókarinnar næst með því að fylgjast með textanum meðan hlustað er.  Meira

Góðir gestir í heimsókn

Hljóðbókasafn Íslands fékk morgunheimsókn síðastliðinn föstudag. Nágrannar okkar á Bókasafni Kópavogs kíktu í kaffi og spjall um um bækur og bókatengt efni. Starfsfólkið þar hefur oft reynst okkur haukur í horni og þetta var virkilega notaleg stund. Takk fyrir komuna  Meira

Heimsókn til Storytel

Starfsfólk Hljóðbókasafns Íslands heimsótti Storytel á dögunum og fékk kynningu á fjölbreyttri starfsemi fyrirtækisins og húsakynnum. Storytel er ein stærsta streymisveita hljóð- og rafbóka á heimsvísu og hefur heldur betur hitt í mark hjá íslensku þjóðinni. Það er alltaf fróðlegt og gagnlegt að heimsækja aðila sem eru að fást við svipaða hluti, þó forsendurnar séu ólíkar, heyra af áskorunum sem blasa við þeim og síðast en ekki síst að bera saman bækur sínar. Starfsfólk safnsins er margs fróðara eftir heimsókina og þakkar Storytel hjartanlega fyrir höfðinglegar móttökur.  Meira

Fræðsludvöl forstöðumanns í Svíþjóð

Marín Guðrún Hrafnsdóttir, sem veitir Hljóðbókasafni Íslands forstöðu, er nú komin heim eftir dvöl hjá sænska hljóðbókasafninu MTM (Myndigheten för tillgängliga medier). Þar fræddist hún um systurstofnun sem sinnir margvíslegum verkefnum til að auka aðgengi og stuðla að jafnrétti. Upplýsingafulltrúi MTM, Louse Werner, tók eftirfarandi viðtal við Marín á meðan á dvöl hennar stóð:  Meira

Jólaheimsókn til Blindrafélagsins

Fyrir skemmstu heimsóttu tveir starfsmenn safnsins glaðbeittan hóp bókaunnenda hjá Blindrafélaginu. Í heimsókninni fóru starfsmennirnir yfir það helsta í jólabókaflóðinu, hvað væri búið að lesa inn og hvað væri væntanlegt fyrir jólin auk þess sem tekið var við ábendingum og skipst á skoðunum um bækur og bókatengt efni. Þetta var sérlega notaleg heimsókn og starfsmenn safnsins eru þakklátir að fá tækifæri til að kynna starfsemi safnsins á þessum vettvangi.  Meira

Alþjóðleg vika lesblindu

Fyrsta vika hvers októbermánaðar er ávallt helguð alþjóðlegri vitundarvakningu um lesblindu og hún hefst alltaf á fyrsta mánudegi mánaðarins. Í ár eru það dagarnir 2. - 8. október. Alþjóðlegi lesblindudagurinn fellur á sunnudaginn 8. október og í tilefni þess viljum við á Hljóðbókasafninu vekja athygli á starfsemi Félags lesblindra á Íslandi, en félagið...  Meira

Kynning hjá Hringsjá

Starfsmenn Hljóðbókasafns Íslands fagna öllum tækifærum til að kynna þjónustu safnsins og í gær var kynning hjá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu. Hringsjá er ætluð einstaklingum 18 ára og eldri sem hafa verið frá vinnumarkaði eða námi vegna slysa, veikinda, félagslegra erfiðleika eða annarra áfalla og vilja hefja nám að nýju. Hjá Hringsjá kemst safnið í...  Meira

Heimsókn á Landsbókasafn

Starfsfólk Hljóðbókasafnsins heimsótti Landsbókasafnið í vikunni og fékk kynningu á fjölbreyttri starfsemi þess og húsakynnum safnsins. Mikil breyting hefur átt sér stað í starfsemi bókasafna, ekki síst í varðveislu og   Meira

8. september er alþjóðadagur læsis

Á alþjóðadegi læsis er vert að vekja athygli á nýfengnum aðgangi Hljóðbókasafns Íslands að alþjóðlegu bókaveitunni ABC (Accessible Books Consortium). ABC geymir efni á yfir 80 tungumálum fyrir fólk með prentleturshömlun og er ætlað að einfalda stofnunum sem þjónusta þann hóp að skiptast á bókum innbyrðis, lánþegum sínum til heilla. Stærstu flokkarnir eru ...  Meira

Starfsskýrsla HBS árið 2022 öllum aðgengileg

Starfsskýrsla Hljóðbókasafns Íslands fyrir árið 2022 er nú komin inn á vefsíðu safnsins. Skýrsluna má nálgast annarsvegar sem hljóðbók með texta og hinsvegar sem pdf-skjal. Til að lesa skýrsluna...  Meira

Forstöðumenn funduðu í Hvalfirði

Forstöðumenn norrænu hljóðbókasafnanna og safnsins í Sviss funduðu á Íslandi dagana 25. og 26. maí sl. Hópurinn fundar nokkrum sinnum á ári og hittist að jafnaði tvisvar á ári. Að þessu sinni var Hljóðbókasafn Íslands gestgjafi og var fundurinn haldinn á Hótel Glym í Hvalfirði. Efni fundarins var m.a. yfirferð með verkefnahópum s.s. tæknihópi, hópi sem fjallar um bækur fyrir börn og ungmenni, hópi sem vinnur við að bæta notendaviðmót og hópi sem fjallar um útgáfu án aðgreiningar. Ákveðið var að stofna tvo nýja hópa sem mun fjalla um bókakost og bókasafnskerfi annars vegar og Evrópulöggjöf um aðgengi hins vegar. Samstarf af   Meira

Allar bækur aðgengilegar frá fyrstu hendi?

Hljóðbókasafn Íslands ásamt fimm norrænum systurstofnunum stóð fyrir og tók þátt í ráðstefnu um inngildandi bókamarkað í Malmö dagana 25.-26. apríl sl. Ráðstefnan bar yfirskriftina Include 2023 og fjallaði um þær mikilvægu breytingar sem eru framundan samkvæmt Evrópulöggjöf um aðgengi að öllu prentuðu efni. Útgáfa án aðgreiningar frá fyrstu hendi er mikil réttarbót og nauðsynlegt er fyrir útgefendur að kynna sér hvernig best megi undirbúa sig undir löggjöfina sem taka á gildi árið 2025. Hljóðbókasafn Íslands ásamt systurstofnunum á Norðurlöndum vill vera leiðandi í því að styðja við útgefendur og innleiðingu á bókamarkaði fyrir alla. Samkvæmt löggjöfinni eru minni útgáfur undanþegnar en ljóst er að aðgengileg útgáfa sem hentar blindum og prentleturshömluðum felur í sér tækifæri enda stækkar lesendahópurinn. Lesvenjur eru einnig að breytast og bókamarkaður þarf að laga sig að þeim breytingum.  Meira

Kynning á Hljóðbókasafni á Akureyri

Um miðjan mars fór Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafnins, til Akureyrar til þess að heimsækja bókasöfn, framhaldsskólana tvo og Símey símenntunarmiðstöð. Tilefni ferðarinnar var að kynna Hljóðbókasafnið og   Meira

Vel lukkuð Safnanótt

Hljóðbókasafnið tók þátt í dagskrá vetrarhátíðar Kópavogsbæjar á Safnanótt í fyrsta skipti þann 3. febrúar síðastliðinn. Mikið safn alls kyns tromma í eigu starfsmanna var til sýnis og ásláttar fyrir alla sem vildu og Skólahljómsveit Kópavogs lék nokkur fjörug lög sem mæltust vel fyrir. Gestum var boðið að skoða hljóðver safnsins, fylgjast með hljóðbókalesara að störfum og spreyta sig sem lesarar. Þrátt fyrir leiðindaveður voru gestir tæpt hundrað og skemmtu sér allir hið besta.   Meira

Þjónusta við nemendur á háskólastigi

Starfsmenn Hljóðbókasafnsins og Nemendaráðgjafar Háskóla Íslands hittust fyrir skömmu til að ræða þjónustu við lestrarhamlaða háskólanema. Nemendum við H.Í sem óska eftir sérstakri aðstoð við nám hefur farið fjölgandi og er það í takt við þróun sem á sér stað alls staðar í heiminum enda er nú sem betur fer betur hugað betur að þörfum og réttindum þeirra sem þurfa slíka aðstoð. Fundurinn var jákvæður og í framhaldinu verður kannað hvernig hægt er að bæta þjónustuna við nemendur á háskólastigi.  Meira

Heimsókn til SHH

Starfsfólk Hljóðbókasafnsins fór nýlega í heimsókn til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og fékk þar góða kynningu á starfseminni. Þjónustan sem þar er veitt er víðtæk og má nefna rannsóknir, ráðgjöf, kennslu og túlkaþjónustu. Ekki er síst lögð áhersla á að hlúa að íslenska táknmálinu, sérkennum þess og stöðu meðal tungumála.   Meira

Tilkynning frá Hljóðbókasafni Íslands:

Undanfarið hafa verið truflanir á rafrænni þjónustu safnsins sem tengjast álagi. Mikil vinna hefur átt sér stað í að finna út hvað veldur og er nú talið að lausn sé fundin. Á meðan unnið er að því að forrita nauðsynlega breytingu fyrir okkur hjá danska hljóðbókasafninu þurfum við að aftengja skipun um bókamerki. Þetta kemur ekki að sök nema þegar skipt er á milli tækja. Ef skipt er á milli tækja tapar kerfið upplýsingum um hvar í bók lánþegar eru staddir. Við biðjumst afsökunar og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að lagfæra þetta með hraði.   Meira

Nýskipaður samráðshópur Hljóðbókasafnsins

Í síðustu viku var haldinn fyrsti fundur hjá nýskipuðum samráðshópi Hljóðbókasafns Íslands, skipaður af ráðherra menningarmála Lilju Alfreðsdóttur til næstu fjögurra ára. Hópurinn er forstöðumanni safnsins til ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni sem varða starfsemi þess, t.d. um starfsáætlanir, framboð og þjónustu.  Meira

Samningur við Myndstef

Þann 27. september undirrituðu Hljóðbókasafn Íslands og Myndstef tvo samninga vegna birtinga mynda og bókakápa í höfundarrétti á vef og í streymisveitu.   Meira

Nýr samningur við Rithöfundasambandið

Hljóðbókasafn Íslands skrifaði í dag undir samning við Rithöfundasamband Íslands um bótagreiðslur til rithöfunda vegna ritverka sem safnið gerir aðgengileg fyrir lánþega sína.   Meira

Tilkynning

Tilkynning um hækkun á árgjöldum Hljóðbókasafns Íslands. Ný gjaldskrá tekur gildi þann 1. október næst komandi. Árgjöld safnsins hækka í kr. 2500 og tekur sú fjárhæð mið af árgjöldum almennningsbókasafna. Þetta tilkynnist hér með. Hljóðbókasafn Íslands   Meira

Kiwanisklúbburinn Katla gefur barnabókalestur

Kiwanisklúbburinn Katla hefur reynst Hljóðbókasafninu vel undanfarin ár. Katla hefur frá árinu 2016 styrkt innlestur á barna- og unglingabókum með reglulegu millibili. Kiwanismennirnir Ólafur Sigmundsson og Ásmundur Jónsson áttu fund með forstöðumanni HBS og deildarstjóra útlánadeildar þann 28. september 2021. Í kjölfarið var ákveðið að Katla greiði innlestur á tíu barna- og unglingabókum á árinu 2022, alls tæplega hálf milljón króna. Kiwanisklúbburinn Katla er svo sannarlega hollvinur Hljóðbókasafns Íslands og verður þeim seint fullþakkað.  Meira

Samnorrænn tæknifundur á Íslandi

Hljóðbókasafn Íslands var um mánaðamótin gestgjafi á reglulegum fundi samstarfssafna á Norðurlöndum, Sviss og Hollandi. Samstarf af þessu toga er ómetanlegt fyrir lítið safn á borð við HBS. Þessir fundir eru haldnir 4 sinnum á ári, til skiptis á netinu og í raunheimum og skiptast samstarfssöfnin á um að vera gestgjafar. Tilgangur fundanna er að skiptast á upplýsingum um stöðu og framþróun tæknimála safnanna og þar sem söfnin eru öll rafræn er mjög mikilvægt að fylgjast með þróun mála í upplýsingatækni og miðlun gagna þeim tengdum. Einnig og ekki síður mikilvægt er beint samstarf á milli safnanna um þróun, aðlögun og smíði hugbúnaðar sem nýtist öllum söfnunum. Meðal annars hefur verið í smíðum og er kominn í notkun hjá nokkrum safnanna sameiginlegur prófunarhugbúnaður fyrir hljóðbækur sem er notaður til að tryggja tæknileg gæði þeirra bóka sem söfnin gera aðgengilegar fyrir lánþega sína.   Meira

40 ára afmæli fagnað á Hljóðbókasafni Íslands

40 ára afmæli Hljóðbókasafns Íslands var fagnað með veglegri dagskrá 5. maí síðastliðinn. Vinir og velunnarar HBS fjölmenntu í húsakynni safnsins og þáðu léttar veitingar . Góðir gestir ávörpuðu samkomuna: Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir, Sigþór U. Hallfreðsson formaður Blindrafélagins, Øyvind Engh forstöðumaður norska hljóðbókasafnsins NLB og Arndís Þórarinsdóttir rithöfundur auk þess sem Marín Hrafnsdóttir forstöðumaður safnsins flutti ávarp.   Meira

Afmælisviðtal í Fréttablaðinu

Hljóðbókasafn Íslands fagnar um þessar mundir 40 ára afmæli sínu, en safnið var formlega stofnað með lögum árið 1982. Í tilefni afmælisins er Marín Hrafnsdóttir, sem veitir safninu forstöðu, í viðtali við Fréttablaðið.   Meira

Stefna og framtíðarsýn Hljóðbókasafns Íslands 2022

Hljóðbókasafn Íslands hefur sent frá sér bækling sem nefnist Stefna og framtíðarsýn Hljóðbókasafns Íslands 2022-2025. Verkefnið unnu starfsmenn safnsins ásamt stjórnunarráðgjafa og hjálpuðust að við að móta stefnu fyrir safnið næstu árin. Einnig var fundað með samráðshópi en þar eiga fulltrúa Blindrafélagið, Félag lesblindra, Félag bókasafns- og upplýsingafræða, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð og Félag sérkennara.   Meira

Sýning um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi

Í tilefni 40 ára afmælis Hljóðbókasafns Íslands býður safnið upp á sýningu og fyrirlestur um ævi og störf Guðrúnar frá Lundi undir nafninu Kona á skjön. Sýningunni verður sjónlýst fyrir blinda. Fyrirlesari er Marín Guðrún Hrafnsdóttir bókmenntafræðingur og langömmubarn Guðrúnar. Hún er jafnframt annar höfunda sýningarinnar ásamt Kristínu Sigurrós Einarsdóttur skjalaverði og svæðisleiðsögumanni. Fyrirlesturinn er fluttur fimmtudaginn 28. apríl klukkan 14.30 og sýningin verður svo opin í mánuð þar á eftir. Rithöfundaferill Guðrúnar frá Lundi er sannkallað ævintýri í íslenskri bókmenntasögu. Óþekkt kona norðan úr Skagafirði verður metsöluhöfundur nánast yfir nótt og bækurnar tróna á toppi vinsældarlista í áratugi. Hún er orðin 59 ára þegar fyrsta skáldsagan kemur út, eftir það skrifar hún 27 bækur í 11 skáldverkum.   Meira

Nú þurfa allir að skipta um lykilorð

Samkvæmt starfsreglum Hljóðbókasafns Íslands þurfa lánþegar að skipta um lykilorð einu sinni á ári. Ef tenging þín hefur rofnað er nýtt lykilorð í tölvupóstinum þínum. Athugið að það gæti hugsanlega hafa lent í ruslpósti. Óheimilt er að deila aðgangi, safnið er eingöngu ætlað þeim sem á þurfa að halda og hafa skilað inn vottorði. Við vonum að þetta valdi þér ekki óþægindum. Ef þú lendir í vandræðum ekki hika við að hringja í síma 54 54 900 eða senda okkur töluvpóst á hbs@hbs.is   Meira

Til hamingju með Marakess-sáttmálann

Aðild Íslands að Marakess-sáttmálanum tekur formlega gildi í dag og því ástæða til að fagna. Undirritun sáttmálans tryggir aðgengi að fjölbreyttara efni fyrir blinda, sjónskerta og fólk með lestrarhömlun og nú með þeim hætti að ekki skiptir máli hvar í heiminum bækur og annað prentefni er gefið út. Höfundarréttarvarið efni, sem gert er aðgengilegt, verður því óháð landamærum. Heimildir í sáttmálanum fjalla sérstaklega um óhagnaðardrifin félög og stofnanir á borð við Hljóðbókasafn Íslands sem gerir efni aðgengilegt fyrir þá sem á þurfa að halda og því skiptir undirritun Íslands miklu máli fyrir þann hóp sem nýtir sér mikilvæga þjónustu safnsins.   Meira

Hljóðbókasafnið fær hæsta styrk úr Bókasafnasjóði

Miðvikudaginn 12. janúar úthlutaði menntamálaráðherra 20 milljónum króna í 11 styrki úr Bókasafnasjóði. Þetta er fyrsta úthlutun sjóðsins en styrkveitingar eru allar í þágu íslenskra bókasafna. Hæsta styrkinn fær að þessu sinni Hljóðbókasafn Íslands, 6 milljónir króna, fyrir verkefnið Hljóðstafi. Verkefnið snýr að því að ljúka við smíði hugbúnaðarkerfis til að samþætta upplesið hljóð og texta í aðgengilega bók. Markmið bókasafnasjóðs er að efla starfsemi bókasafna og fer Rannís með umsjón sjóðsins. Sjóðurinn styrkir skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála.  Meira

Verndun íslensku í stafrænu formi

Hljóðbókasafn Íslands er ein þeirra stofnana sem taka þátt í máltækniáætlun Íslands. Á dögunum var skrifað undir nýjan samning Almannaróms (miðstöðvar um máltækni) og Samstarfs um íslenska máltækni (SÍM) um framkvæmd áætlunarinnar á þriðja verkefnisári.   Meira

Norrænu hljóðbókasöfnin á Degi læsis:

Sameiginleg sýn á mikilvægi þess að lesefni sé aðgengilegt öllum: Samkvæmt evrópskri tilskipun um aðgengi (EAA) skal stefnt að auknu aðgengi og inngildandi bókamarkaði fyrir lestrarhamlaða. Við, sem í dag gerum lesefni aðgengilegt, fögnum þessari réttarbót og hlökkum til að koma með nýjar lausnir og deila þekkingu okkar um þarfir lesendahópsins sem um ræðir svo stuðla megi að almennri útgáfu án aðgreiningar. Í sameiningu einsetjum við okkur:   Meira

95% ánægja með þjónustu Hljóðbókasafns Íslands

Hljóðbókasafn Íslands fékk bestu útkomuna í samræmdri þjónustukönnun sem birt var á vef Stjórnarráðsins þann 5. mars sl. Spurt var um heildaránægju með þjónustuna, samskipti við stofnun, áreiðanleika upplýsinga, afgreiðsluhraða erinda og stafræna þjónustu. Safnið var hæst af þeim 33 ríkisstofnunum sem voru kannaðar að þessu sinni  Meira

Útlán Hljóðbókasafnsins verða hluti deilisjóðs

Reglum um greiðslur fyrir afnot efnis á bókasöfnum hefur verið breytt með þeim hætti að eftirleiðis verða útlán Hljóðbókasafns Íslands talin með. Höfundar fá því greitt fyrir útlán safnsins með sama hætti og fyrir útlán hjá Háskólabókasöfnum og almenningsbókasöfnum. Kostnaður vegna þessa greiðist af árlegri fjárveitingu Alþingis. Rétthöfum er bent á að sækja þarf um hjá Rithöfundasambandi Íslands á þar til gerðum eyðublöðum. Nægjanlegt er að sækja um einu sinni og gildir umsókn þá ótímabundið. Greiðslur vegna útlána ársins 2020 munu berast til rétthafa í lok maí 2021.   Meira

Útgáfa án aðgreiningar - Erindi af ráðstefnu

11. nóvember hélt NIPI (Nordic Inclusive Publishing Initiative) ráðstefnu sem sérstaklega var ætluð útgefendum og starfsfólki bókasafna, þar sem alþjóðlegir fyrirlesarar með sérþekkingu á fjölmörgum hliðum rafrænnar og aðgengilegrar útgáfu kynntu fyrir lykilþátttakendum úr norrænni útgáfu hvað þarf til til að ástunda útgáfu án aðgreiningar. Þessi erindi eru nú öll aðgengileg þeim sem vilja kynna sér aðgengilega útgáfu. NIPI er samstarfsverkefni fimm norrænna systursafna sem öll bera ábyrgð á að gera bækur og annað lesefni aðgengilegt þeim sem ekki geta lesið prentað letur sér til gagns.   Meira

Hefur lesið 500 bækur fyrir Hljóðbókasafn Íslands

Á fullveldisdaginn, 1. desember, var Þórunni Hjartardóttur veitt viðurkenning fyrir ómetanlegt framlag á lestri bóka fyrir Hljóðbókasafn Íslands, en hún hefur á árunum 1992-2020 lesið inn 500 bækur fyrir safnið. Sú bók sem markaði þessi tímamót hjá Þórunni og var bók númer 500 er Nýsköpun og frumkvöðlafræði eftir Óttar Ólafsson.   Meira

Útgáfa án aðgreiningar – ráðstefna

Hljóðbókasafn Íslands hefur lengi verið virkt í alþjóðlegu samstarfi, enda er starfsemin mjög sérhæfð og gagnlegt samstarf er einna helst að finna hjá systursöfnum á erlendri grund. Ein birtingarmynd þessa samstarfs er NIPI sem er samstarfsverkefni fimm norrænna systursafna sem öll bera ábyrgð á að gera bækur og annað lesefni aðgengilegt þeim sem ekki geta lesið prentað letur sér til gagns. Miðvikudaginn 11. nóvember heldur NIPI (Nordic Inclusive Publishing Initiative) ráðstefnu sem sérstaklega er ætluð útgefendum og starfsfólki bókasafna, þar sem alþjóðlegir fyrirlesarar með sérþekkingu á fjölmörgum hliðum rafrænnar og aðgengilegrar útgáfu munu kynna fyrir lykilþátttakendum úr norrænni útgáfu hvað þarf til til að ástunda útgáfu án aðgreiningar.   Meira

HBS skrifar undir samstarfssamning við SÍM

Hljóðbókasafn Íslands skrifaði í dag undir samning milli SÍM (Samstarf um íslenska máltækni) og Almannaróms (miðstöðvar um máltækni). Að Almannarómi standa háskóla- og rannsóknastofnanir, fyrirtæki og félagasamtök. Meginhlutverk Almannaróms er að tryggja að íslenska standi jafnfætis öðrum tungumálum í hinu stafræna umhverfi. Safnið er þar með orðið formlegur hluti af þessu mikilvæga samstarfi.  Meira